Hraðlar
Hér má finna yfirlit yfir hraðla utan höfuðborgarasvæðisins. Ef þú vilt skoða alla hraðla, þá finnur þú þá hér.
Vaxtarrýmið Austanátt er 8 vikna ferli fyrir einstaklinga eða teymi sem vilja þróa áfram hugmyndir sem skapa verðmæti á Austurlandi. Í vaxtarrýminu gefst hugmyndasmiðum færi á að tengjast öðrum frumkvöðlum, fá ráðgjöf frá reyndum sérfræðingum og fræðslu. Vaxtarrýmið fer fram frá byrjun september til loka október 2024. Fræðsla og ráðgjöf fer fram reglulega yfir tímabilið í gegnum netið. Þátttakendur hittast þrisvar yfir tímabilið í heilan dag. Þátttaka er að kostnaðarlausu.
Startup Stormur er sjö vikna hraðall fyrir græn verkefni á Norðurlandi, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Hraðalinn er rekinn af Norðanátt og er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi. Hraðalinn fer að mestu leyti fram á netinu en teymin hittast jafnframt þrisvar sinnum á vinnustofum.
Startup Stormur er sjö vikna hraðall fyrir græn verkefni á Norðurlandi, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Hraðalinn er rekinn af Norðanátt og er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi. Hraðalinn fer að mestu leyti fram á netinu en teymin hittast jafnframt þrisvar sinnum á vinnustofum.
Startup Tourism er fimm vikna viðskiptahraðall sem er sniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu alls staðar af landinu. Markmið hraðalsins er að hvetja til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum, ýta undir tæknivæðingu og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring. Allt að tíu fyrirtæki eru valin til þátttöku. Hraðallinn er á vegum KLAK - Icelandic Startups og Íslenska ferðaklasans.
Nýsköpunarhemill hjá Blábankanum fyrir frumkvöðla og skapara sem þora að fara í aðra átt. Hemillinn er fyrir sprotafyrirtæki, teymi og einstaklinga með nýsköpunarverkefni á öllum stigum, hýst á Þingeyri, Vestfjörðum. Nýsköpunarhemill er ólíkur nýsköpunarhraðli á þann veg að hann býður fólki upp á einstakt tækifæri til að staldra við, aftengjast hraða hversdagsleikans, öðlast skýrleika, einbeitingu og leyfa verkefninu að blómstra.
Fyrsti viðskiptahraðalinn á Vesturlandi var haldinn veturinn 2023-2024. Vesturbrú er sex vikna hraðall fyrir verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð Vesturlands. Markmið hraðalsins er að efla sköpunarkraft og frumkvöðlastarf á svæðinu og tengja saman fólk og hugmyndir. Viðskiptahraðallinn Vesturbrú er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Vesturlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja komast lengra með sín verkefni. Áætlað er að hraðallinn verði rekinn á tveggja ára fresti.